Líkur á því að framkvæmdir í Helguvík verði slegnar af um óákveðinn tíma hafa aukist, sérstaklega í kjölfar niðurstöðu Icesave-atkvæðagreiðslunnar. Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabankans sem kom út í dag. Bent er á, líkt og áður hefur komið fram í Peningamálum, að framkvæmdum hefur ítrekað verið seinkað vegna vandamála við fjármögnun, óvissu um aðgengi að nægilegri orku og vandamála í tengslum við skipulags- og leyfismál.

Grunnspá Seðlabankans gerir ráð fyrir framkvæmdum í tengslum við fyrsta áfanga við byggingu álvers í Helguvík.Samkvæmt spánni fara framkvæmdir við álverið og tengdar orkuframkvæmdir á fulla ferð árið 2012 og ná hámarki á árinu 2013.

„Í samanburði við grunnspána hefði það fyrst og fremst áhrif á efnahagsþróunina á árunum 2012-2013 ef ekki yrði af þessum framkvæmdum. Vöxtur heildarfjármunamyndunar yrði líklega um 10 prósentum minni á næsta ári og um 5 prósentum minni árið 2013. Vöxtur innlendrar eftirspurnar yrði því um 2 prósentum minni hvort árið og hagvöxtur um ½ prósentu minni. Eftirspurn eftir vinnuafli verður jafnframt minni og atvinnuleysi um ½ prósentu meira á næsta ári og um 1½ prósentu meira árið 2013. Útflutningur verður einnig veikari, en þau áhrif koma að mestu fram eftir að spátímanum lýkur.

Minni fjárfesting hefði einnig í för með sér að framleiðslugeta þjóðarbúsins verður heldur minni. Framleiðsluslakinn yrði þó hátt í 1 prósentu meiri en í grunnspánni árið 2013. Meiri slaki í þjóðarbúskapnum gerir það einnig að verkum að vextir verða lægri sem verður til þess að gengi krónunnar verður lægra en í grunnspánni. Það vegur á móti áhrifum meiri slaka á verðbólgu. Verðbólguþróunin verður því mjög svipuð og í grunnspánni.“