Stjórn Twitter og Elon Musk funduðu í gær vegna yfirtökutilboðs auðkýfingsins. Samkvæmt heimildum Wall Street Journal miðar viðræðum áfram og samkomulag um viðskiptin gæti náðst í vikunni. Ekkert liggur þó fyrir í þeim efnum.

Musk varð nýlega stærsti hluthafi Twitter eftir að hafa eignast 9,2% hlut og tilkynnti stuttlega í kjölfarið um 43 milljarða dala yfirtökutilboð í samfélagsmiðilinn án þess þó að greina frá hvernig hann hygðist fjármagna kaupin. Stjórn Twitter innleiddi þá svokallaða eitraða pillu (e. poison pill) til að koma í veg fyrir að Musk gæti stækkað verulega við hlut sinn í félaginu.

Sjá einnig: Musk afhjúpar fjármögnun fyrir Twitter-kaup

Afstaða stjórnarinnar mun hins vegar hafa breyst eftir að Musk tilkynnti í lok síðustu viku um fjármögnun á mögulegri yfirtöku.

Musk, sem er ríkasti maður heims samkvæmt auðmannalista Forbes, er sagður hafa hitt nokkra af stærstu hluthöfum Twitter á föstudaginn. Hann sóttist sérstaklega eftir að ræða við sjóði í virkri stýringu sem hann vonast til að geti haft áhrif á ákvörðun fyrirtækisins.