Verðbólga jókst nokkuð á milli mánaða í Bretlandi í júní síðastliðnum en þá fór hún úr 1,5% í 1,9%. Verðhækkun á fatnaði, sérstaklega kvenfatnaði, mat og drykkjarvörum, ásamt hærri flugfargjöldum þrýsti verðbólgunni upp, að sögn breska útvarpsins ( BBC ). Verðbólga hefur nú í samfleytt sjö mánuði verið undir verðbólgumarkmiðum Englandsbanka, seðlabanka Bretlands, en er nú að nálgast markmið enda aðeins 0,1 prósentustigi undir þeim.

BBC hefur eftir hagfræðingum í Bretlandi að verðbólgutölurnar geti aukið líkurnar á því að Englandsbanki hækki stýrivexti í ljósi þess að á sama tíma og verðbólga hafi aukist hafi dregið úr atvinnuleysi. Stýrivextir í Bretlandi hafa staðið í 0,5% um alllangt skeið.