Fjárfestar telja auknar líkur á stýrivaxtahækkun bandaríska seðlabankans þrátt fyrir að atvinnusköpun hafi verið undir væntingum í september.

Alls urðu til 156.000 störf í Bandaríkjunum í september, borið saman við 167.000 störf í ágúst. Atvinnuleysi stendur í 5% eða nálægt náttúrulegu atvinnleysi í Bandaríkjunum, og hefur hækkað úr 4,9%. Að meðaltali hafa orðið til 180.000 störf á mánuði á þessu ári í Bandaríkjunum og eru nýjustu tölurnar af vinnumarkaði því undir væntingum.

Þrátt fyrir þetta telja aðilar á markaði að Seðlabanki Bandaríkjanna muni hækka vexti í desember næstkomandi, en líkurnar á stýrivaxtahækkun bankans hækkuðu úr 63,9% í 70,2% miðað við vísitölu CME Group um framvirka samninga með skammtímavexti.

Loretta Mester, seðlabankastjóri seðlabankans í Cleveland, segir hagtölurnar standast væntingar og að þær séu nógu sterkar til að rökstyðja vaxtahækkun. Markaðsaðilar telja stýrivaxtahækkun á næsta fundi peningastefnunefndar Seðlabanka Bandaríkjanna (FOMC), dagana 1.-2. nóvember, þó afar ólíklega, enda lækkaði markaðurinn líkurnar á vaxtahækkun úr 14,5% síðastliðinn fimmtudag í 10,3% eftir birtingu hagtalnanna.

Ofan á það eru forsetakosningar í Bandaríkjunum þann 8. nóvember og ólíklegt að seðlabankinn hreyfi við mörkuðum sex dögum fyrir kosningar, þó svo að Mester segi vaxtaákvarðanir bankans vera óháðar pólitískum sviptingum.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Bandaríkjanna hækkaði síðast vexti í desembermánuði árið 2015. Næstu vaxtaákvarðanir bankans eru 1.-2. nóvember og 13.-14. desember.