Greining Íslandsbanka segir að ákveðin atriði í fundargerð peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands beri með sér að peningastefnunefndin komi til með að lækka stýrivexti á næsta vaxtaákvörðunardegi sem er 21. maí næstkomandi. Fundargerðin var birt í gær. Samkvæmt henni voru nefndarmenn sammála um að það myndi fara eftir þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga næstu mánuði hvort skapast gæti tilefni til lækkunar nafnvaxta.

Greining Íslandsbanka segir að birting fundargerðarinnar hafi haft áhrif á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra ríkisbréfa í morgun sem hafi  lækkað um 1-5 punkta í ríflega 1,2 milljarða króna viðskiptum. Verði stýrivextir bankans lækkaðir í maí er það fyrsta vaxtalækkunin síðan í febrúar 2011 og fyrsta vaxtabreytingin síðan í nóvember 2012. Verður þá rofið lengsta samfellda tímabil óbreyttra stýrivaxta í yfir þrjá áratugi.