Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017 og fimm ára áætlun var lagt fram í borgarstjórn á þriðjudaginn. Í frumvarpinu er einnig er að finna útkomuspá fyrir rekstur borgarinnar á þessu ári.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata, sem mynda meirihluta í borginni, sendu frá sér tilkynningu af þessu tilefni þar sem segir meðal annars: „Með sameiginlegu átaki, aðhaldi og hagræðingu, samhliða ákveðnum tekjuvexti, hefur nú tekist að leggja fram fjárhagsáætlun með afgangi án þess að hækka skatta."

13,9 milljarða viðsnúningur

Auk fjárhagsætlunar fyrir árið 2017 og fimm ára áætlunar er í frumvarpinu að finna útkomuspá fyrir yfirstandandi ár. Þegar það er skoðað má sjá að auknar skatttekjur og breytingar á lífeyrisskuldbindingum skýra bætta afkomu í rekstri Reykjavíkurborgar á þessu ári. Í fyrra var 13.640 milljóna króna halli á rekstri borgarsjóðs (A-hluta) en samkvæmt útkomuspá þessa árs er gert ráð fyrir 240 milljóna króna afgangi. Viðsnúningurinn milli ára nemur tæpum 13,9 milljörðum króna.

Þegar rekstrarreikningur borgarsjóðs er skoðaður kemur ljós að gert er ráð fyrri því að auknar skatttekjur milli ára nemi 6,7 milljörðum króna. Útsvarið breyttist ekkert milli ára þannig að aukninguna má líklega að mestu leyti rekja til launahækkana.  Einnig er gert ráð fyrir því að gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga lækki úr 14,6 milljörðum í 6 milljarða eða samtals um 8,6 milljarða. Aukna skatttekjur og breyting á lífeyrisskuldbindingum skilar borgarsjóði 15,3 milljörðum króna. Laun og launatengd gjöld hækka á móti um 3,1 milljarða króna milli ára og er það vegna kjarasamningsbundinna launahækkana. Þá hækka langtímaskuldir við lánastofnanir um 1,8 milljarða milli áranna 2015 og 2016.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .