Skuldir heimila við bankakerfið jukust um 13,8 milljarða króna í desember og nema nú í heild 838 milljörðum króna. Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum greiningardeildar Kaupþings [ KAUP ] sem vísar í tölur frá Seðlabanka Íslands. Útistandandi verðtryggð íbúðalán bankanna námu í lok árs tæplega 500 milljörðum króna sem er um 70% af heildarskuldum heimila. Greiningardeildin segir að athygli veki að aukning gengisbundinna lána nemi nær 10 prósentum milli mánaða en á sama tíma hafi verið rúmlega 1% samdráttur í verðtryggðum lánum. Einnig hafi orðið aukning í yfirdráttarlánum en þau nemi í dag 76 milljörðum króna og hafi aldrei mælst hærri.

Mikil erlend lán

Gengisbundin lán heimila námu í lok desember 138 milljörðum króna og eru í sögulegu hámarki, segir í Hálffimm fréttum. Hlutdeild erlendra skulda heimila er sögð hafa farið vaxandi á síðustu mánuðum og slík lán séu í dag rúmlega 16% af heildarskuldum heimila. Þau beri gengisáhættu og séu í raun ein tegund vaxtamunarviðskipta. Breytingar á gengi krónunnar hafi því áhrif á greiðslubyrði slíkra lána. Þannig aukist greiðslubyrði heimila þegar krónan veikist og að sama skapi minnki greiðslubyrðin þegar krónan styrkist.

Íbúðalán bankanna minnka mikið

Í frétt greiningardeildarinnar segir að ný lán til íbúðakaupa frá innlánastofnunum hafi numið 1,8 milljörðum króna í desember sem sé töluverður samdráttur milli mánaða. Samdráttur hafi einnig mælst í  nýjum íbúðalánum frá Íbúðalánasjóði en ekki jafn mikill og hjá bankakerfinu. Heildarupphæð nýrra íbúðalána hjá sjóðnum hafi numið 5,2 milljörðum króna í desember.