Rekstrarhagnaður Icelandair á þriðja ársfjórðungi nam 102,8 milljón Bandaríkjadölum, en á sama tíma fyrir ári reyndist hann vera 103,1 milljónir dala, eða í kringum 11,7 milljarðar íslenskra króna.

Heildartekjur félagsins jukust þó um 13% á milli ára en þær fóru úr rúmum 429 milljónum dala í tæpar 486 milljónir dala.

Farþegum fjölgaði um 19%

Ef horft er á tekjurnar á föstu gengi jukust þær um 17%, en farþegum í millilandaflugi fjölgaði um 19% á milli áranna. Jafnframt var sætanýtingin góð.

Á sama tíma jukust útgjöldin úr tæpum 274 milljónum dala í rétt rúmar 324 milljónir, eða um 18% á gengi hvers árs fyrir sig. EBITDA félagsins jókst úr 155,6 milljónum dala á sama tímabili í fyrra í tæpar 161,8 milljónir í ár.

Heildarhagnaður og eignir jukust

Heildarhagnaður fyrirtækisins á tímabilinu fór úr 98,4 milljónum dala í fyrra í 112,3 milljónir á sama tíma í ár sem er aukning um 14%.

Heildareignirnar fóru úr tæpum 972 milljónum á þriðja ársfjórðungi í fyrra í tæpa 1,2 milljarða dali í ár, sem er aukning um 20% milli ára.

Eigið fé félagsins fór úr 456,5 milljónum upp í 582,9 milljónir á milli áranna sem er aukning um 28% og skuldirnar fóru úr rúmum 515 milljónum dala í rétt rúmar 601 milljón dali. Eiginfjárhlutfallið var 49%.