Hagnaður flugfélagsins Mýflug nam í fyrra 37,3 milljónum króna, samanborið við 15 milljóna hagnað árið áður. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir skatta og fjármagnsliði nam 58,8 milljónum króna, samanborið við 36,8 milljónir árið áður.

Tekjur félagsins voru í fyrra 438,5 milljónir og jukust um tæpar 39 milljónir. Eigið fé félagsins var í árslok um 86,6 milljónir en langtímaskuldir tæpar 96 milljónir. Fyrir utan útsýnis- og þjónustuflug sinnir Mýflug einnig sjúkraflugi samkvæmt samkomulagi við ríkið.

Félagið er með fimm vélar í rekstri, þar af eina vél sem er í eigu Flugmálastofnunar. Í ársreikningi félagsins kemur fram að Mýflug hafi greitt 15 starfsmönnum laun á síðasta ári en launakostnaður nam um 133 milljónum.