Þrátt fyrir lækkun á gjaldskrám fyrir kalt vatn og rafmagnsdreifingu í upphafi árs jukust tekjur Orkuveitu Reykjavíkur samstæðunnar á fyrstu níu mánuðum ársins frá sama tímabili 2017. Aukin umsvif í samfélaginu, fjöldi nýbygginga, auknar tekjur af heildsölu rafmagns og kalt tíðarfar valda því. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá OR.

Framlegð og afkoma reksturs OR og dótturfélaganna voru betri á fyrstu níu mánuðum þessa árs en 2017. Reiknaðar stærðir, sem áhrif hafa á heildarafkomu en ekki sjóðstreymi, voru hinsvegar óhagfelldari í ár en í fyrra.

Árshlutareikningur samstæðu OR var samþykktur á fundi stjórnar í dag og sýnir hann 5,9 milljarða króna hagnað á fyrstu níu mánuðum ársins. Auk móðurfélagsins eru Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur í samstæðunni.

Fjárfestingar innan samstæðunnar eru talsverðar. Auk þess að tengja fjölda nýbygginga við veitukerfin, vinna Veitur að endurnýja stofnæða hita- og vatnsveitna, boranir eftir gufu, sem tekist hafa vel, hafa staðið við virkjanir Orku náttúrunnar á Nesjavöllum og Hellisheiði og heimilum tengdum Ljósleiðaranum fjölgar.

Eins og fram kemur í fjárhagsspá OR fyrir árin 2019-2024, sem birt var 5. október síðastliðinn, er útlit fyrir stöðugleika í rekstri og afkomu Orkuveitu Reykjavíkur næstu árin þrátt fyrir verulegar fjárfestingar í uppfærslu veitukerfa og aukinni sjálfvirkni, meðal annars með snjallvæðingu notkunarmælinga.