Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðhera fylgir tillögum Hafrannsóknarstofnunar um heildarafla í öllum tegundum við ákvörðun sína sem birt var í dag. Tók ráðherrann, Gunnar Bragi Sveinsson, þessa ákvörðun eftir samráð við ríkisstjórn.

Aukning í þorski en minnkun á ýsu

Nokkur aukning er á veiðiheimildum milli ára í þorski, þar má nú veiða 244.000 tonn en mátti á yfirstandandi fisveiðiári veiða 239.000 tonn, einnig er nokkur aukning í djúpkarfa, grálúðu, steinbít, keilu og Skarkola. Smávægileg minnkun er á ýsu og aðrar tegundir minnka nokkuð.

Segir þar að nýliðun í mikilvægasta stofninum, þorski, hafi verið nokkuð undir meðallagi, en stækkun stofnsins á undanförnum árum sé bein afleiðing af minni sókn. Á hinn bóginn virðist sem nýliðun margra hlýsjávarstofna hafi minnkað og sé líkleg skýring í breyttum umhverfisskilyrðum í hafinu við Ísland síðastliðin 10 - 15 ár.

Sjálfbærar veiðar

Í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar segir að margir nytjastofnar á Íslandsmiðum séu í ágætu jafnvægi og nýting þeirra sé hófleg.

Aflareglan sem miðað er við þegar veiðar eru ákveðnar standist alþjóðleg varúðarsjónarmið og styrki stöðu íslenkra sjávarafurða á alþjóðamarkaði, því það sé vaxandi áhersla markaðsaðila erlendis á að selja sjávarafurðir vottaðar sem sjálfbærar.