Almenningur væntir þess að verðbólgan til næstu tólf mánaða verði 3,95% samkvæmt upplýsingum sem Seðlabankinn birti í gær. Um er að ræða umtalsverða aukningu í verðubólguvæntingum almennings frá því að síðasta mæling var gerð í maí en þá vænti almenningur 3,25% til tólf mánaða.

Í Morgunkornum Íslandsbanka kemur fram að verðbólgan mælist nú 3,7% og gerir almenningur því ráð fyrir að hún aukist enn. Auknar verðbólguvæntingar eru áhyggjuefni fyrir Seðlabankann. Svo virðist vera sem almenningur trúi því ekki að bankinn muni ná markmiði sínu um 2,5% verðbólgu og að verðbólgan verði rétt við efri þolmörk peningastefnunnar. Þó svo að hluta af skýringunni megi rekja til bensínverðshækkana undanfarið þá er þetta umhugsunarefni fyrir bankann og þáttur sem hann þarf að bregðast við. Í þessu ljósi og annarra þátta spáum við því að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti sína um 25-50 punkta á allra næstu vikum eða dögum. Í síðastla lagi teljum við að bankinn muni tilkynna um vaxtahækkunina samhliða útgáfu ársfjórðungsrits síns Peningamála 17. september næstkomandi.