Fyrstu vísbendingar benda til þess að útblásturshneykslið hjá Volkswagen hafi ekki haft teljandi áhrif á bíla sem bera Volkswagen merkið. Þýski bílaframleiðandinn birti í morgun sölutölur sínar fyrir september.

Það sem af er ári hefur salan minnkað um 4,7% samanborið við janúar til september í fyrra. Hins vegar minnkaði salan um 4% í september. Alls höfðu selst 4.349.600 bílar í lok september.

Salan í Bandaríkjunum, þar sem útblástursmálið uppgötvaðist, jókst um 0,6% í september en minnkaði fyrstu níu mánuðina um 2,5%.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá á föstudag er þó of snemmt að segja til um hvort málið, og þá hversu mikið, muni hafa á sölu fyrirtækisins.