Nú þegar ár er liðið frá því að Google var skráð á markað hyggst félagið gefa út nýtt hlutafé að verðmæti allt að 4 milljarðar dollara. Þegar frumútboð með bréf félagsins fór fram gekk mikið á og seinkaði útboðinu trekk í trekk, m.a. vegna mistaka stjórnenda félagsins. Forsvarsmenn Google hafa verið þöglir sem gröfin þegar kemur að því að segja til um hvernig eigi að ráðstafa hinu nýja hlutafé eins og bent er á í Hálffimm fréttum KB banka.

Það hefur leitt til þess að sérfræðingar á Wall Street keppast við um að setja fram tilgátur um yfirtökur Google á öðrum félögum. Hæst fer orðrómur um að Google ætli sér að kaupa kínverska félagið Baidu.com eða TiVo Inc. Auk þess eru getgátur um að félagið ætli sér að nota peningana til að fara inn á markað varðandi internetsímaþjónustu.

Bréf Google hafa meira en þrefaldast í verði á því eina ári sem liðið er frá skráningu félagsins á markað og vöxtur tekna og hagnaðar verið góður. Það er því ekki að furða þó að sérfræðingar á Wall Street bíði spenntir eftir því að sjá hvernig hinu nýja hlutafé verður ráðstafað.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.