Töluverð aukning er hjá Prentsmiðjunni Odda í framleiðslu bóka fyrir þessi jól segir í tilkynningu frá félaginu. Um 70% innlendrar jólabókaframleiðslu fer fram hjá Odda og því gefur þessi aukning skýra vísbendingu um gróskuna í íslenskri bókaútgáfu.

Titlum fjölgaði um 9% og eintökum um 13% á þriggja mánaða tímabili frá byrjun september til loka nóvember, miðað við sama tíma í fyrra. Á þessu tímabili eru hvað flestar jólabækurnar prentaðar. Enn á þó eftir að bætast við, því von er á frumprentunum nýrra jólabóka fram í miðjan desember.

Alls hafa 127 aðilar látið prenta bækur hjá Odda á þessu ári, miðað við 118 í fyrra. Útgefendur eru sem fyrr umfangsmestir í bókaútgáfunni hjá Odda en smásalar, opinberar stofnanir, bankar, félagasamtök, eintaklingar og stærri fyrirtæki eru í vaxandi mæli að láta prenta fyrir sig bækur allan ársins hring.