Mikil aukning var á veltu dagvöruverslunar á Íslandi í júní. Tólf mánaða hækkun veltu dagvöru á föstu verði var 14,3%, að teknu tilliti til verðlagsbreytingar, samkvæmt nýjustu mælingum Rannsóknaseturs verslunarinnar. Velta dagvöru hefur aldrei aukist jafn mikið á 12 mánaða tímabili síðan byrjað var að reikna smásöluvísitöluna árið 2001. Krónutöluhækkun var 7,9 prósent.

Jón Þór Sturluson, forstöðumaður RSV segir að verðhækkanir í dagvörugeiranum í júnímánuði hafi vakið athygli en það séu nú margir sem þykjast sjá fyrir enda svokallaðs verðstríðs. "Sérstök tilboð eru þó enn áberandi í dagvöruverslunum og virðist meginskýringin á þessari hækkun vera tafin viðbrögð við lítilsháttar veikingu krónunnar í apríl og maí."

Velta vínbúðanna hefur verið blómleg alveg frá árs byrjun en 13% aukning var á sölu áfengis í júní. Þróunin í lyfjaverslun er hins vegar á allt annan veg, en þar er veltuaukning einungis 1,8% á milli ára. Samanburður í lyfjaverslun er þó nokkuð villandi vegna nýlegra kerfisbreytinga í lyfjaverðsmálum.

Síðastliðið ár hefur verðvísitala dagvöru lækkað um 5,6% á meðan verð á áfengi hefur hækkað um 0,3%. Verðhækkanir í lyfjasmásölu síðustu 12 mánuði nema 1,4%

Nú liggur fyrir að hækkun veltu dagvöru á milli annars ársfjórðungs 2004 og 2005 er rétt tæplega 10% og 7,3% í áfengisverslun sem er vísbending um að ekkert sé að hægja á aukningu einkaneyslu, nema síður sé.

Þess ber að nefna að velta í smásölu í Bretlandi jókst meira í júní en sérfræðingar höfðu reiknað með. Breska hagstofan telur að veltan hafi aukist um 1,3%. Þetta þýðir að veltuaukningin síðustu 12 mánuði er 1,6%. Betri útkoma í júní gengur þvert á vangaveltur manna um að neysla sé að dragast saman í Bretlandi.