Mikil aukning hefur verið í eftirspurn eftir flugi með einkaþotum í Bretlandi eftir hryðjuverkaógnina í London í síðustu viku. Þeir sem hafa meira á milli handanna reyna þannig að forðast stóraukna öryggisgæslu og troðning á flugvöllum þar í landi. Þessi aukna eftirspurn kemur upp á tíma sem er venjulega hvað minnst að gera hjá fyrirtækjum sem veita slíka þjónustu.

Chris Leach, formaður Air Charter Service, segir að símalínur fyrirtækisins hafi verið rauðglóandi að undanförnu og að viðskipti hafi tvöfaldast í ágúst. Leach segir að fólk úr viðskiptalífinu sem venjulega leigi þotur aðeins til viðskiptaferða leigi nú þotur til einkaferðalaga. Flug með einkaþotu með fjögurra manna fjölskyldu og barnfóstru frá London til Nice kostar um 1,2 milljónir króna (9.000 pund), báðar leiðir. Sama flug myndi kosta um 560 þúsund krónur á fyrsta farrými með British Airways. "Hvað varðar hættu, tímasparnað og gæði þá er þess virði að leigja einkaþotu. Ef að fólk hefur tök á því að sleppa við það frumskógarástand sem ríkir nú á flugvöllum í Englandi, mun það eyða þessum nokkrum þúsunda punda til þess," sagði Leach.

SkyJet International, sem er dótturfyrirtæki kanadíska fyrirtækisins Bombardier, segir að 25% aukning hafi orðið á viðskiptaferðum með einkaflugi yfir Atlantshafið frá sama tíma í fyrra. Forstjóri SkyJet, Judith Morton, varar þó við því að leggja of mikla túlkun í þessa aukningu: "Einhver hluti aukningarinnar kann að verða varanlegur, en þegar ástandið róast munu flestir snúa aftur til almennu flugfélagana."

En flestar hliðar einkaflugiðnaðarins eru þó að færast í vöxt, hvort sem það er sala á þotum, aukning í flugferðum eða fjárfestingar í slíkum flugfélögum.