Helstu breytingar sem urðu á jólaversluninni fyrir nýliðin jól í samanburði við jólaverslunina 2010 var töluverð aukning í sölu raftækja og smávægilegur samdráttur í fataverslun. Þetta kemur fram í samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar sem reiknar út smásöluvísitöluna.

Að öðru leyti virðast landsmenn hafa keypt álíka mikið og fyrir síðustu jól og fyrir jólin þar áður. Þannig var verslun með dagvöru sambærileg og árið áður að magni til þó hún hafi aukist um 6,5% í krónutölu vegna verðhækkana.

Fataverslun dróst saman um 3,2% í desember miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og um 2,8% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum dróst velta fataverslunar í desember saman um 5,0% frá sama mánuði árið áður. Verð á fötum hækkaði um 0,4% frá sama mánuði fyrir ári.

Sala á raftækjum í desember jókst um 15,2% á föstu verðlagi og um 10,3% á breytilegu verðlagi. Verð á raftækjum var 4,3% lægra en í desember 2010.

Veltan jókst um 0,4%

Velta í dagvöruverslun jókst um 0,4% á föstu verðlagi í desember miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 6,5% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í desember um 0,7% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hefur hækkað um 6,1% á síðastliðnum 12 mánuðum.