Skatttekjur hins opinbera jukust um 32,6 milljarða króna á síðasta ári og námu alls 416 milljörðum samanborið við 383 milljarða árið 2009. Þetta kemur fram í ríkisreikningi fyrir árið 2010 sem út kom í vikunni en hlutfallsleg aukning skatttekna nemur 8,5% á milli ára.

Veigamesti þátturinn í skatttekjum ríkissjóðs er sem fyrr virðisaukaskattur en samtals námu tekjur af virðisaukaskatti 124 milljörðum króna sem er aukning um tæpa 3 milljarða á milli ára. Þetta skýrist af því að hærra þrep virðisaukaskatts var hækkað um eitt prósentustig í upphafi ársins, úr 24,5% í 25,5%, en virðisaukaskattur skilar meiru en fjórðungi allra skatttekna hins opinbera, 25,9%. Næst stærsti tekjuliðurinn er tekjuskattur á einstaklinga sem skilar 93,8 milljörðum króna og jukust skatttekjur af tekjuskatti um 5,8% eða 5,2 milljarða króna á árinu.

Þróun skatttekna ríkissjóðs frá 2009-2010
Þróun skatttekna ríkissjóðs frá 2009-2010

Stækka má myndina með því að smella á hana.

Hafa ber í huga að á árinu tók gildi þrepaskiptur tekjuskattur og er hann nú 37,22% á tekjur á upp að 200 þúsundum króna, 40,12% á tekjur frá 200 þúsundum upp að 650 þúsundum og 46,12% á tekjur umfram 650 þúsund. Einnig ber að hafa í huga að inni í þessum prósentutölum er útsvar til sveitarfélaga en vegið meðaltal þess er 13,12% og til þess að ákvarða hlutfall ríkissjóðs af þessum tekjuskatti þarf að draga 13,12 frá áðurnefndum tölum. Árið 2009 voru tvö tekjuskattsþrep á einstaklinga, 37,2% á allar tekjur og 8% viðbótarskattur á tekjur umfram 4,2 milljónir á ári, frá því má draga útsvar upp á 13,10%. Af þessu er ljóst að hækkanir tekjuskatts hafa skilað hærri skatttekjum.

Þriðji veigamesti liðurinn í skattheimtu ríkissjóðs eru tryggingagjöld, sem vikið verður nánar að síðar, og sá fjórði er vörugjöld. Tekjur af vörugjöldum jukust um 17% á milli ára sem helgast öðru fremur af kolefnisgjaldi og vörugjaldi á rafmagn.