Landsbankinn dregur sérstaklega fram gagnrýni Fjármálaráðs á að ríkisstjórnin stefni á útgjaldaaukningu sem ekki eigi sér hliðstæðu á síðustu áratugum í umfjöllun sinni um fjármálaáætlun. Segir í nýrri Hagsjá Landsbankans að útgjaldaaukningin sé beinlínins stefna ríkisstjórnarinnar og að miklar kröfur séu um slíka stefnu.

Fjármálaráð bendi hins vegar á að með því að skera ekki niður annars staðar eða frekari tekjuöflun sé í raun verið að velta ábyrgð hagstjórnarinnar yfir á Seðlabankann og stjórn hans á peningamálum. Meirihluti fjárlaganefndar bendir á að um er að ræða 78 milljarða króna aukin útgjöld fram til ársins 2023.

Þrátt fyrir að sú fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir alþingi sé sú þriðja síðan lög um opinber fjármál tóku gildi vekur það athygli greinenda bankans hversu lítið áherslur í fjármálum hins opinbera hafi breyst á undanförnum árum þrátt fyrir tíð stjórnarskipti.

Engin fjármálastefna enn dugað út tímabilið

Segja greinendurnir hinn fasta ramma opinberra fjármála sem þarna sé kominn, vera mikla framför og sama megi segja um nauðsynlegan fyrirsjáanleika. Hins vegar benda þeir á að engin fjármálastefni hafi gilt út tímabilið sem þingsályktun þeirra mælti fyrir og engin fjármálaáætlun á öðru ári fjármálastefnu hefur verið lögð fram.

Þær hafi allar þrjár verið á byrjunarreit tímabils fjármálastefnu og því ekki reynt á þanþol hennar og vaxandi óvissu sem þeir vænta að muni einkenna seinni hluta tímabilsins.

Gagnrýnin snýr öll að formi ekki efni

Helsta gagnrýnin virðist þó vera hve bundið þingið telur sig vera af tillögum ríkisstjórnarinnar að fjárlagastefnu. Þannig snúist allar breytingartillögur meirihluta fjárlaganefndar að umgjörð og framsetningu en ekki efnislegu innihaldi tillagnanna og afleiðingum þeirra á hagstjórn.

Þetta rekur Hagsjáin allt aftur til þess þegar byrjað var að nota hinn nýja ramma fjárlagagerðar sem byggir á svokallaðri afkomureglu. Það er að heildarjöfnuður hins opinbera yfir fimm ára tímabil skuli ávalt vera jákvæður og árlegur halli aldrei meiri en 2,5% af vergri landsframleiðslu.+

Afkomuregla hefði ekki dugað fyrir hrun

Samtök atvinnulífsins hafa þó gagnrýnt afkomuregluna og sagt að hún gangi ekki nógu langt og benda á að hún hefði t.a.m. ekki dugað til að draga úr skuldaaukningunni fyrir hrun. Það myndi hins vegar tekjuregla, sem bindi hendur ríkisins til að halda sig innan meðaltekjuaukningar undangenginna ára, gera.

Í nýrri fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að heildarafkoma ríkisins verði jákvæð um minnst 1,4% af VLF í ár, 1,2% á næsta ári og 1% árin 2021 og 2022.