Fjármagnstekjuskattur verður hækkaður um 1 til 2% og lágmarkseign þeirra sem þurfa að greiða auðlegðarskatt verður lækkuð umtalsvert til að auka tekjur ríkisins um 11 milljarða króna á árinu 2011. Tekjuskattur á einstaklinga mun ekki hækka.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru tillögur um leiðir til að auka tekjur ríkisins um þessa upphæð tilbúnar og er markmið þeirra að hlífa heimilum landsins við frekari beinni skattlagningu. Auknir skattar munu því lenda frekar á stóreignafólki og fyrirtækjum landsins.

Brúa þarf 40 milljarða gat

Tillögurnar munu lita dagsins ljós í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Það verður lagt fram í haust. Alls þarf að fylla upp í fjárlagagat sem nemur rúmlega 40 milljörðum króna á árinu 2011. Ríkisstjórnin stefnir að því að um 30 milljarðar króna sparist með niðurskurði hjá hinu opinbera.

Auðlegðarskattur var fyrst lagður á vegna skattársins 2009. Hann er 1,25% eignarskattur sem lagður er á eignir einhleypra sem áttu meira en 90 milljónir króna í hreinum eignum, eða hjóna/sambúðarfólks sem áttu meira en 120 milljónir króna í hreinum eignum. Hann var lagður á eignir alls 3.817 fjölskyldur á síðasta ári og skilaði um 3,8 milljörðum króna í ríkiskassann. Fjármagnstekjuskattur er skattur sem leggst á vaxtatekjur, arð, söluhagnað og leigutekjur. Hann er í dag  18 prósent en mun hækka um 1 til 2% samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar.  Þó verður ekki farið í þrepaskiptingu fjármagnstekjuskatts samkvæmt tillögunum.