Auðlegðarskattur er einn af nýjum sköttum sem fjármálaráðherra lagði á fyrir ári. Auðlegðarskattur, sem er í raun eignaskattur, leggst einna helst á hjón sem eru eldri en 51 árs og einstaklinga sem eru eldri en 67 ára.

Þann 1. ágúst næstkomandi verða í fyrsta sinn sendir út álagningaseðlar vegna auðlegðarskatts. Reiknað er með að 496 einstaklingar og 1410 hjón eigi eignir umfram þau mörk hreinnar eignar sem lagaákvæði um auðlegðargjald segja til um.

Langflestir þeirra einstaklinga sem greiða munu auðlegðarskatt eru 67 ára og eldri, um 47%. Í hópi hjóna sem munu greiða auðlegðarskatt eru flestir 51 árs eða eldri, eða um 76%. Þetta kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Tryggva Þórs Herbertssonar á Alþingi.

Auðlegðarskattur er í raun nýtt heiti á eignaskatti. Þeir einstaklingar sem eiga hreinar eignir sem nema meira en 90 milljónum króna, og hjón sem eiga hreinar eignir sem nema meira en 120 milljónum króna, falla í hóp skattgreiðenda sem ber að greiða auðlegðarskatt. Auðlegðarskattur er 1,25% og skattstofninn eru allar eignir að frádregnum skuldum.

-Nánar í Viðskiptablaðinu