Góð ávöxtun var hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum á árinu 2006. Nafnávöxtun var 19,6% sem jafngildir 11,8% raunávöxtun. Annað árið í röð er raunávöxtun sjóðsins vel yfir 10% og hefur það styrkt tryggingafræðilega stöðu sjóðsins verulega segir í frétt á heimasíðu landssambands lífeyrissjóða.

Eignir sjóðsins við áramót námu 88,3 milljörðum króna og höfðu hækkað um 22,9% milli ára.
Í ljósi sterkrar stöðu hefur stjórn sjóðsins samþykkt að hækka áunnin lífeyrisrétt í aldursdeild um 8% frá 1. janúar 2007. Samtals hefur því lífeyrisréttur deildarinnar hækkað um 15% á tveimur árum, þar sem réttindin voru hækkuð um 7% frá upphafi árs 2006. Þessi ákvörðun stjórnar er í samræmi við samþykktir sjóðsins um að veita aukinn lífeyrisrétt til sjóðfélaga þegar svigrúm skapast vegna góðrar rekstrarafkomu.


Ávöxtun fjölbreyttra ávöxtunarleiða Sameinaða lífeyrissjóðsins í séreignarsparnaði var einnig mjög góð á árinu. Hækkunin var mest á innlendum og erlendum hlutabréfum og nutu því þær ávöxtunarleiðir sem hafa hátt hlutfall þeirra í fjárfestingum sínum þess best.