Í ljósi góðrar afkomu á síðasta ári og traustum rekstri hefur stjórn Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda ákveðið að hækka áunnin rétt sjóðfélaga um 5% miðað við stöðu þeirra í árslok 2005.

Í frétt frá sjóðnum kemur fram að elli-, maka-, og örorkulífeyrisgreiðslur hækka frá og með 1. janúar 2006 og kemur hækkunin til framkvæmda nú og verður greidd til lífeyrisþega þann 3. apríl 2006. Hækkunin kemur þeim einum til góða sem eiga réttindi í sjóðnum í árlok 2005. Ávöxtun ársins 2005 var sú besta í sögu sjóðsins. Nafnávöxtun var 18% en það samsvarar 13,3% hreinni raunávöxtun.

Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðastliðin 5 ár er 6,9% og síðastliðin 10 ár 6,4%.

Rekstarkostnaður sjóðsins lækkar milli ára, bæði krónulega og hlutfallslega. Nemur hann nú 0,12% af eignum í árslok.
Hrein eign til greiðslu lífeyris nam 41,3 milljarðar króna og vex um 7,8 milljarða frá fyrra ári eða um 23,1%. Eignasamsetning sjóðsins í árslok 2005 er þannig að innlend hlutabréf námu 16%, erlend verðbréf námu 22% og innlend skuldabréf námu 62% eigna.

Tryggingafræðileg staða sjóðsins er traust. Umframeign gerir það að verkum að hægt var að auka áunnin rétt sjóðfélaga. Heildareignir nema 6% umfram heildarskuldbindingar. Góð ávöxtun 2005 ásamt lægri rekstrarkostnaði bæta tryggingafræðilega stöðu sjóðsins. Séreignardeilin gekk vel og var ávöxtun 14,1%. Eignir jukust um 35,3% eru þær í árslok 268 milljónir króna.