Tekjur Facebook aukast hraðar en búist var við og mun líklega leiða til enn meiri áhuga fjárfesta á félaginu. Áhugi fjárfesta veldur því að félagið neyðist til þess að veita upplýsingar líkt og um skráð félag sé að ræða fyrir apríl 2012.

Þetta kemur fram í 101 blaðsíðna skjali sem Goldman Sachs dreifði til helstu viðskiptavina sinna. Kemur fram í skjalinu, og Reuters segir frá, að hagnaður á fyrstu níu mánuðum ársins hafi verið 355 milljónir dala, jafnvirði nærri 42 milljarða króna. Tekjur námu 1,2 milljarði dala.

Gögnum um Facebook var dreift til auðugra fjárfesta í tengslum við 1,5 milljarða dala hlutafjárútboð Facebook. Hingað til hafa ekki birst svo ítarleg gögn um fjárhag félagsins, þar sem það er ekki skráð á markað og upplýsingaskylda því lítil.