Hver ertu

Einar Örn Einarsson, 27 ára, starfsmaður eigin viðskipta Saga Capital verðandi fjárfestingabanka, áður hjá eigin viðskiptum Kaupþings Banka. Útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík vorið 2004.

2. Hvað ertu með mikla peninga í veskinu?

0 kr.

3. Ertu með mörg kreditkort?

Eitt kreditkort í gangi.

4. Viðskiptabankinn þinn?

Kaupþing banki.

5. Ertu eyðslukló?

Já ég held að það sé óhætt að fullyrða það.

6. Leggurðu fyrir?

Að sjálfsögðu, bæði reglubundið og óreglubundið.

7. Hefurðu átt í fjárhagslegum erfiðleikum?

Hef ekki átt í teljandi fjárhagsvandræðum þó svo að maður hafi kannski ekki lifað hátt á námsárunum.

8. Áttu þitt eigið húsnæði?

Já, ég bý í eigin húsnæði.

9. Áttu sumarbústað?

Nei, en foreldrar mínir keyptu nýlega bústað sem fjölskyldan er dugleg að nýta.

10. Fjárfestirðu í hlutabréfum eða skuldabréfum?

Ég fjárfesti bæði í hlutabréfum og skuldabréfum. Í vinnunni er fókusinn þó á erlendum hlutabréfamörkuðum.

11. Hver er versta fjárfestingin þín?

Ætli það sé ekki tölvan mín sem ég er búinn að eyða alltof miklu í en er alltaf biluð.

12. Hver er besta fjárfestingin þín?

Það hlýtur að vera menntunin. Svo var fyrsta íbúðin líka mjög góð fjárfesting.

13. Sérðu um fjármálin sjálfur eða gerir það einhver fyrir þig?

Ég sé um fjármál heimilisins.

14. Sérðu sjálfur um skattframtalið?

Já, skattframtalið er því miður á minni könnu.

15. Í hvað eyðirðu of miklu?

Ég eyði mestu í íbúðina mína, en of miklu í bensín og flugfargjöld.

16. Hver er mesti munaðurinn sem að þú hefur leyft þér?

Að kaupa draumabílinn sem ég hafði varla efni á að reka, þó svo að hann hafi reynst ágætis fjárfesting þegar upp var staðið.

17. Í hvað ætlarðu að eyða næst?

Bleyjur og barnamat.

18. Finnur þú fyrir lækkun virðisaukaskatts á matvælum?

Nei, ég get ekki sagt að ég finni mikið fyrir þessari lækkun.