Hver ertu?

Rán Ingvarsdóttir, 28 ára gamall lögfræðingur hjá Barnaheillum og lögfræðikennari við Menntaskólann í Reykjavík.

Hvað ertu með mikla peninga í veskinu?

300 kr.

Ertu með mörg kreditkort?

Nei, bara eitt.

Viðskiptabankinn þinn?

Glitnir.

Ertu eyðslukló?

Nei.

Leggurðu fyrir?

Já. Ég er sparigrís.

Hefurðu átt í fjárhagslegum erfiðleikum?

Nei.

Áttu þitt eigið húsnæði?

Já.

Áttu sumarbústað?

Nei.

Fjárfestirðu í hvoru tveggja hlutabréfum og skuldabréfum eða öðru hvoru?

Nei.

Hver er versta fjárfestingin þín?

Ég keypti hjólakörfu úr basti á 6.900 kr. í íslenskri hjólabúð. Þremur dögum síðar var ég stödd á útimarkaði á Ítalíu þar sem nákvæmlega sama karfa var seld á 50 krónur. Þá fékk ég sting í magann.

Ég keypti líka einu sinni bambusflautur handa bræðrum mínum af götusala í Aþenu á 1.000 krónur stykkið og var þvílíkt hamingjusöm yfir kaupunum þangað til ég hitti fyrir annan götusala aðeins neðar í götunni með alveg nákvæmlega eins flautur á 80 krónur stykkið. Þá fékk ég aftur sting í magann.

Hver er besta fjárfestingin þín?

Húsið mitt.

Sérðu um fjármálin sjálf eða gerir það einhver fyrir þig?

Já, ég sé um þau sjálf.

Sérðu sjálf um skattframtalið?

Já.

Í hvað eyðirðu of mikið?

Held ekki neitt. Ég hata að eyða peningum í vitleysu.

Hver er mesti munaðurinn sem að þú hefur leyft þér?

Mér finnst ekkert töff að eyða peningum og flissa svo kæruleysislega yfir því hvað maður eigi marga skó. Ég eyði svo sem stundum peningum í eitthvað hégómlegt og óþarflegt, en ég held því fyrir sjálfa mig.

Í hvað ætlarðu að eyða næst?

Ég ætla að kaupa mér nýjan eldhúsborðdúk og kaupa í leiðinni prjóna og garn í peysu sem ég ætla að prjóna.

Hefur þú fundið fyrir lækkun virðisaukaskatts á matvælum?

Ekkert sérstaklega.