Í dag var svo vefsíðunni Aurbjörg, aurbjorg.is . hleypt af stokkunum. Aurbjörg vinnur að sama markmiði og vefsíðan herborg.is , að aðstoða fólk við að finna besta íbúðarlánið fyrir sig. Þannig getur lántakandi slegið inn þá fjárhæð sem hann þarf og er lánveitendum svo raðað niður eftir því hvaða kjör þeir bjóða – ýmist verðtryggð eða óverðtryggð.

Vefsíðan er mjög gagnleg fyrir þá sem vilja upplýsingar um íbúðarlán á einum stað. „Aurbjörg er svokallaður „chattbotti“, á slæmri íslenskunni, á vefsíðunni sem ber saman húsnæðislán frá öllum helstu lánastofnunum og finnur hagstæðustu lánakjörin,“ segir Ólafur Örn Guðmundsson, annar hönnuða Aurbjargar.

„Aurbjörg getur einnig reiknað út hvort hagstætt sé fyrir neytendur að endurfjármagna sem og að vakta núverandi lán neytenda, og látið þá vita ef endurfjármögnun verður hagstæð í framtíðinni.“ Á síðunni er hægt að sjá ítarlegar upplýsingar um hvert lán, til að mynda veðhlutfall, uppgreiðslugjald og nauðsynlegar forsendur til að taka viðeigandi lán. Til viðbótar er hægt sjá greiðsluáætlun, þar sem fram koma afborganir fyrir hvern mánuð.

„Aurbjörg byrjaði sem gæluverkefni nokkra starfsmanna Plain Vanilla, og endaði á því að ég, ásamt Þórhildi Jensdóttir, tókum verkefnið uppá okkar arma,“ segir Ólafur Örn. „Það er mikil vinna fyrir neytendur og flókið að þurfa að heimsækja allar heimasíður lánastofnana til að reikna út greiðslubyrði láns, en með Aurbjörgu er hægt að gera það á einum stað.“

Lesa má um málið í Fasteignablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .