Héraðsdómur Reykjavíkur hefur kveðið upp dóm í máli þrotabús Milestone gegn Aurláka ehf., þar sem síðarnefnda fyrirtækinu hefur verið gert að greiða þrotabúinu rúmar 970 milljónir króna.

Forsaga málsins er sú að Lyf og heilsa var selt út úr Milestone-samsteypunni, sem var í eigu Karls og Steingríms Wernerssona, á vormánuðum 2008 til félagsins Aurláka, sem er í eigu Karls. Hann á fyrirtækið ennþá í gegnum Aurláka.

Milestone varð gjaldþrota árið 2009 og hélt þrotabúið því nú fram að ekki hafi fullnægjandi greiðsla fengist við söluna til Aurláka. Þar hafi vantað upp á 970 milljónir króna. Tilgangurinn með sölunni hefði í raun verið að koma Lyf og heilsu undan gjaldþroti Milestone.

Héraðsdómur féllst á röksemdir og málsástæður þrotabúsins og hefur nú gert Aurláka að greiða 970 milljónir króna til viðbótar.

Dóminn má lesa í heild sinni hér.