Þeir Íslendingar sem þáðu Aurora rafmyntina árið 2014 og skiptu beint yfir í Bitcoin gætu átt andvirði nokkurra milljóna króna ef þeir skiptu myntinni á réttum tíma.

Verðgildi rafmynta hefur löngum sveiflast mikið en sú fyrsta á sjónarsviðið, Bitcoin hefur verið í nýjum hæðum á síðustu misserum og samsvarar eitt slíkt nú tæplega 5 milljónum króna, eða 38.554 Bandaríkjadölum.

Í kjölfarið fylgdu fjölmargar aðrar rafmyntir út á völlinn, sem hafa farnast mjög misvel en ein þeirra var íslenska rafmyntin Aurora Coin sem allir Íslendingar gátu fengið gefins eilítið af við stofnun.

Aurora Coint myntinni var dreift 25. mars árið 2014 en þá gátu Íslendingar sótt sem nemur 31,8 Aurora Coin. Fjölmargir þáðu boðið, svo mjög að vefsíða stofnendanna hrundi, en margir nýttu tækifærið og skiptu beint yfir í þá upphaflegu.

Sveiflaðist mikið gagnvart Bitcoin

Verðgildi myntarinnar sveiflaðist töluvert í aðdraganda gjafarinnar og fór hæst upp í 0,13 Bitcoin fyrir hverja einingu en var þegar myntinni var dreift í um 0,02 Bitcoin á hverja einingu, sem þá voru um 1.200 krónur. Verð myntarinnar féll þó skarpt á næstu dögum og var komið niður í 0,001 Bitcoin einingu í mánuði síðar.

Hafi einhverjum tekist að skipta öllum 31,8 Aurora Coin einingunum á genginu 0,02 Bitcoin samsvarar það um þremur milljónum íslenskra króna í dag vegna mikillar verðhækkunar Bitcoin. Hafi einhver gert það mánuði síðar á genginu 0,001 Bitcon samasvarar gjöfin ríflega 150 þúsund krónum. Helgi Már Hrafnkelsson, sölustjóri hjá Advania, bendir á í færslu á Linkedin hve mikil verðmæti Íslendingar kunni að eiga hafi þeir haldið í Bitcoin en ekki skipt því yfir í dollara og þaðan í krónur.

Hafi þeir haldið í Aurora Coin er hins vegar minna upp úr því að hafa því myntin er ekki metin á nema 0,09885 Bandaríkjadali eða rétt tæplega 13 íslenskar krónur. Þar með væri verðgildi þeirra Aurora Coin rafmynta sem eigendur hefðu tekið út en haldið í þeirri rafmynt ekki nema 3,14 Bandaríkjadalir eða rétt rúmlega 400 krónur.

Mörg gleymd lykilorð

Þó ber að hafa í huga að stór hluta verðmæta sem einstaklingar hafa sótt í Bitcoin hefur glatast eða er geymt á svokölluðum rafrænum veskjum en notendurnir hafa gleymt lykilorðum sínum. Þegar fólk lendir í slíkri aðstöðu er ekki óalgengt að fólk fikri sig áfram með því að slá inn lykilorð sem það hefur vanið sig á að nota í gegnum tíðina. Því oftar sem fólk slær inn rangt lykilorð styttist í að lokað verði fyrir aðgang þess, a.m.k. um stundarsakir.

Þjóðverjinn Stefan Thomas, sem starfar sem forritari í Bandaríkjunum, er einn þeirra sem hefur orðið ofangreindri gleymsku að bráð . Nema hvað að í hans tilfelli gæti gleymska hans verði mun dýrkeyptari en venjan er þegar fólk gleymir lykilorðinu sínu.

Það vill nefnilega svo til, eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum , að gleymskan gæti kostað hann 240 milljónir dollara, eða sem nemur um tæplega 31 milljarði króna. Lykilorðið sem hann er búinn að gleyma veitir honum nefnilega aðgang að stafrænu veski inni á hörðum disk sem inniheldur rafmyntina Bitcoin, að andvirði fyrrnefndrar fjárhæðar.

Thomas hefur þegar gert átta árangurslausar tilraunir til að muna og slá inn rétt lykilorð inn á stafræna veskið og hefur nú aðeins tvær tilraunir til viðbótar til að komast inn á aðgang sinn.

Fyrrverandi yfirmaður öryggismála hjá samfélagsmiðlarisanum Facebook, Alex Stamos, hefur boðið Thomas aðstoð sína gegn því að hann fái 10% af andvirði rafmyntarinnar að launum, takist honum ætlunarverkið.

Fékk 7 þúsund Bitcoin að launum fyrir rúmum áratug

Forsaga málsins er sú að fyrir rúmum áratug fékk Thomas 7.002 Bitcoin að launum fyrir gerð myndbands sem útskýrði hvernig rafmyntir og tæknin á bakvið þær virkar. Á þeim tíma nam virði hvers Bitcoin aðeins nokkrum dollurum. Líkt og mikið hefur verið fjallað um hefur gengi Bitcoin verið á miklu flugi og í dag nemur virði eins Bitcoin um 35 þúsund dollurum.

Thomas varðveitti Bitcoin rafmyntina í stafrænu veski sem kallast IronKey inni á harða disknum sem fyrr hefur verið nefndur. Til öryggis skrifaði hann lykilorðið að veskinu á bréfmiða, sem hann átti síðar eftir að týna.

Ef báðar tilraunirnar sem Thomas á eftir til að slá inn rétt lykilorð misheppnast, verður ómögulegt fyrir hann að nálgast auðæfin, þar sem að eftir 10 misheppnaðar tilraunir er umrætt veski hannað til að dulkóða lykilorðið.

Hér má sjá fréttir og umfjallanir um rafmyntir eins og íslensku Aurora Coin: