Aurora velgerðarsjóður hefur tekið við rekstri fjögurra löndunar- og fiskvinnslustöðva í Síerra Leóne ásamt félaginu Neptune Holding og stjórnvöldum í landinu. Samningar þess efnis voru undirritaðir á föstudaginn og gilda til næstu tíu ára. Fjárframlag til verkefnisins nemur einni milljón bandaríkjadollara, jafnvirði 135 milljóna íslenskra króna, til að byrja með.

Stöðvarnar fjórar sem um ræðir voru byggðar árið 2012 í samstarfi stjórnvalda í Síerra Leóne og Þróunarsjóðs Afríku og var markmiðið að efla sjávarútveg í landinu. Hins vegar hafa þær staðið ónotaðar síðan þá, einkum vegna skorts á þekkingu á slíkum rekstri, en með samningunum komast þær í notkun. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu landsmanna á sjávarútvegi og styrkja þannig atvinnulíf í Síerra Leóne, sem er ein fátækasta þjóð heims. Gert er ráð fyrir að heimamenn taki við rekstri löndunarstöðvanna þegar samningurinn rennur út.

Aurora velgerðarsjóður var stofnaður árið 2007 að frumkvæði hjónanna Ingibjargar Kristjánsdóttur landslagsarkitekts og Ólafs Ólafssonar, fyrrverandi forstjóra Samskipa, en hann er jafnframt stjórnarformaður sjóðsins. Megintilgangur sjóðsins er að stuðla að og styrkja menningar- og velgerðarmál á Íslandi og erlendis. Frá stofnun hefur sjóðurinn veitt talsverðu fé til Síerra Leóne, en skömmu fyrir jól lagði sjóðurinn til að mynda 20 milljónir króna til neyðaraðstoðar á svæðinu vegna ebólu-faraldursins.