Greiðsluþjónustufyrirtækið Europe Pay hefur komið á fót lausn sem gerir ferðaþjónustufyrirtækjum í Austur-Evrópu kleift að taka við greiðslu frá kínverskum ferðamönnum í gegnum Alipay og Wechat. Þá mun Europe Pay sömuleiðis þjónusta fyrirtæki sem selja vörur til kínverskra ferðamanna og aðstoða þau við samskipti við þá. Fyrirtækið var stofnað fyrr á þessu ári af Indriða Þresti Gunnlaugssyni og hópi íslenskra fjárfesta.

„Við einblínum á Austur-Evrópuhlutann, þar sem sá hluti Evrópu fer mjög vaxandi. Til að byrja með ætlum við að bjóða upp á þjónustuna í Rúmeníu og núna í september ætlum við einnig inn á Króatíumarkað. Þar á eftir er markmiðið að bjóða upp á þjónustuna í Ungverjalandi, Eistlandi og Búlgaríu. Það er 50 til 60% aukning af komum kínverskra ferðamanna til flestra þessara landa og því þótti okkur tilvalið að byrja á þeim," segir Indriði. Hann segir að í dag sé engin samkeppni á þessum svæðum og því sé mikilvægt fyrir fyrirtækið að vaxa hratt.

Hugljómun eftir frétt í norsku viðskiptablaði

Europe Pay er þriðja greiðsluþjónustufyrirtækið sem Indriði stofnar á nokkuð skömmum tíma.

„Upphaf þess að ég fór að pæla í greiðslulausnum má rekja til þess að ég var að vinna sjálfstætt sem ráðgjafi. Einn viðskiptavinur minn var fyrirtækið Axíeva, en þeir voru sérfræðingar í greiðslulausnum og öllu sem því fylgir. Ég hafði ekki hugmynd um hvað þetta var þegar ég var að byrja að hjálpa þeim og í þetta eina ár sem ég vann með þeim lærði ég flest sem ég kann sem við kemur greiðslulausnum," segir hann.

Indriði segir að frétt í norsku viðskiptablaði hafi orðið til þess að hann fór að einblína á greiðslulausnir fyrir kínverska ferðamenn.

„Ég bjó í þrettán ár í Noregi og eitt kvöldið var ég að lesa norsku viðskiptablöðin. Þar sé ég að Alipay var komið til Noregs og kaupmenn þar voru farnir að geta tekið við greiðslum frá kínverskum ferðamönnum í gegnum smáforrit fyrir snjallsíma. Þar sem ég þekkti þessar lausnir stökk ég strax á tækifærið og sendi tölvupóst á framkvæmdastjóra fyrirtækisins sem kom þessari lausn á markað í Noregi. Í tölvupóstinum bað ég um að fá samning fyrir Ísland og þannig, í mjög stuttu máli, verður Central Pay til."

Central Pay-verkefnið gekk að sögn Indriða mjög vel og seldi Indriði hlut sinn í félaginu fyrr á þessu ári til fjárfestahóps undir forystu Jónasar Hagan Guðmundssonar, eins eigenda fjárfestingafélagsins Vörðu Capital, og Sigurbjörns Þorkelssonar, stjórnarformanns Fossa markaða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .