*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 27. mars 2017 17:48

Austurrískir hagfræðingar til Íslands

Um næstu helgi verður ráðstefna á vegum hugveitu af austurríska skólanum í hagfræði um áhrif Brexit og Trump á fríverslun í heiminum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema, ásamt Rannsóknarsetri nýsköpunar og hagvaxtar og Viðskiptaráðs Íslands standa fyrir ráðstefnu um komandi helgi í samvinnu við The Austrian Economic Center í Háskólanum í Reykjavík.

Ráðstefnan er liður í röð af ráðstefnum sem hugveitan AEC heldur víða um Evrópu um annars vegar ákvörðun Bretlands að ganga úr Evrópusambandinu, og hins vegar kosningu Donald Trump sem forseta Bandaríkjanna.

Er þetta 10. árlega ferðaráðstefna hugveitunnar, sem haldin verður í 45 höfuðborgum í Evrópu og nágrenni, dagana 16. mars til 22. maí, og nú er komin að Íslandi, en þetta er í fyrsta sinn sem viðburðurinn er haldinn hér á landi, en stefnt er að því að þetta verði árlegur viðburður.

Markmiðið með ráðstefnunni er að leiða saman fólk í viðskiptalífinu, nemendur og fræðimenn, kjörna fulltrúa, sendifulltrúa og aðra áhugasama þvert um Evrópu til að ræða afleiðingar þessara tveggja stóru nýliðnu atburða.

Í ár einblínir ráðstefnuröðin að afleiðingum sem þessir tveir atburðir, úrsögn Bretlands úr ESB og kosning Trump í Bandaríkjunum, muni hafa á frjálsa verslun og frjálsa flutninga fólks. Jafnframt verður rætt um hvort um sé að ræða uppreisn almennings gegn stjórnmálaklíkum, en á árinu verða kosningar í mörgum löndum Evrópu.

AEC hugveitan var stofnuð árið 2006 og er markmið hennar að koma hugmyndum austurríska skólans í hagfræði á framfæri, en hún starfar í samstarfi við fjölmörg samtök og hugveitur og má þar nefna: Global Philanthropic Trust, Friedrich Naumann Foundation for Freedom, Americans for Tax Reform, Competitive Enterprise Institute, World Taxpayer Associations, European Students for Liberty og F.A.Hayek Institut.

Fyrirlesarar í ár eru:

  • John Fund, sem starfar fyrir Fox News, en starfaði áður fyrir The Wall Street Journal.
  • Gloria Alvarez, en hún er með mastersgráðu í alþjóðaþróun frá Sapienza háskólanum í Róm.
  • Dwight R. Lee, er hagfræðiprófessor frá Bandaríkjunum sem starfar hjá O'Neill center for Global Markets and Freedom
  • Gordon Kerr, hefur langa reynslu úr bankaheiminum og tengist bresku hugveitunni The Cobden Centre.
  • Federico N. Fernandez, starfar fyrir AEC.