Einn stærsti banki Austurríkis, Bank Fuer Arbeit und Wirtschaft (Bawag), hefur samþykkt að greiða sem svarar 48 milljörðum króna eða um 675 milljónum dollara í skaðabætur. Það er til þess að losna undan málaferlum í tengslum við sviksamleg atferli tengt verðbréfaviðskiptum.

Í tilkynningu bandarískra yfirvalda kemur fram að þessi háa greiðsla væri tilkominn vegna viðskipta Bawag og bandaríska fyrirtækisins Refco. Bawag mun hafa aðstoðað stjórnendur Refco við að leyna raunverulegri skuldastöðu fyrirtækisins. Þetta kemur fram í frétt á vef BBC.

Með því að samþykkja greiðsluna viðurkennir Bawag að bankinn hafi staðið óeðlilega að málum.

Bandarísk yfirvöld hafa greint frá því að á árunum 2000 til 2005 hafi Bawag árlega lánað fyrrverandi forstjóra Refco, Phillip Bennett, um það bil 250 til 300 milljónir dollara. Bennett notaði peningana til þess að leyna skuldastöðu Refco.

Um það bil 500 milljónir dollara af greiðslu Bawag munu verða notaðir til þess að greiða skuldunautum Refco sem ella hefðu átt kröfu á hendur Bawag. Þeir fjárfestar sem keyptu hlutabréf Refco eða skuldabréf útgefin af félaginu munu fá sem svarar 100 milljónum dollara í sinn hlut.

Í mars síðastliðnum gáfu austurrísk yfirvöld út handtökuskipun á hendur Bennett sem var ákærður í Bandaríkjunum í nóvember síðastliðnum fyrir fjársvik. Bennett neitar sekt.

Yfirvöld í Austurríki gafu út handtökuskipunina í kjölfar þess að rannsókn hófst á tengslum Bennets og Bawag. Um leið var handtökuskipun gefin út á hendur syni fyrrverandi yfirmanns Bawag, Wolfgang Floettl Jnr.

Honum er gefið að sök að hafa tekið þátt í braski Bennetts og þannig aukið tap Bawag um allt að einum milljarði evra eða um 92 milljörðum króna.