Alþjóðlega hugbúnaðarfyrirtækið Autodesk hefur keypt íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Modio. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Modio var stofnað vorið 2013 af Hilmari Gunnarssyni og hefur þróað app fyrir snjallsíma og spjaldtölvur sem gerir hverjum sem er kleift að hanna skemmtileg módel úr margskonar einingum og þrívíddarprenta þau með lítilli fyrirhöfn. Modio kom fyrst á markað í maí 2014.

Kaup Autodesk á Modio gengu í gegn í október 2014 og síðan þá hefur Modio teymið unnið að nýrri útgáfu af appinu, sem nú er nefnt Tinkerplay. Autodesk tilkynnti um kaupin og nýju útgáfuna af appinu í dag.

Autodesk hyggst halda áfram rekstri þróunarskrifstofu á Íslandi undir merkjum Autodesk með áherslu á þróun á Tinkerplay og samþættingu appsins við aðrar vörur Autodesk. Hjá skrifstofunni starfa í dag sex starfsmenn.