Ekki stendur til að gera ársreikning fjárfestingarbankans Auðar Capital opinberan. Tap félagsins nam tæpum 90 milljónum króna á síðasta ári samkvæmt tilkynningu frá bankanum.

Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital, segir í samtali við Viðskiptablaðið að þar sem félagið sé ekki skráð á markað hafi það ekki tíðkast að birta ársreikninginn opinberlega.

Aðspurð hvort það að bankinn bjóði upp á séreignalífeyrissparnað kalli ekki á birtingu ársreikningsins segir Kristín ekki svo vera.

„Séreignasparnaður er ekki notaður til að fjárfesta í félaginu sjálfur, heldur félögum á markaði,“ segir Kristín.

Hún segir að Auður standi á traustum fótum og söfnun séreignasparnaðarins í félaginu sé í takt við áætlanir þess. Ekki hafi staðið til að gera ársreikninginn opinberan að svo stöddu.