Auður Capital og Björk Guðmundsdóttir hafa stofnað fagfjárfestasjóðinn BJÖRK, sem mun fjárfesta í sprotafyrirtækjum á Íslandi.

Sjóðurinn er hugsaður sem farvegur fyrir fjárfesta sem hafa áhuga á að beina fé í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi og taka þannig virkan þátt í uppbyggingu á Íslandi um leið og þeir ávaxta fé sitt.

Þetta kom fram í tilkynningu frá Auði Capital.

Þar kemur fram að fjárfest verður í fyrirtækjum sem eru að leysa úr læðingi verðmæti sem byggja á sérstöðu Íslands og eru sjálfbær, þ.e.a.s. standa fjárhagslega undir sér, stunda samfélagslega ábyrga viðskiptahætti og eru umhverfisvæn.

„Sérstakur áhugi er á fjárfestingum sem nýta menntun okkar og menningu og búa yfir nýrri tækni og/eða nýrri nálgun,“ segir í tilkynningunni.

Stærð sjóðsins ræðst af áhuga fjárfesta en Auður Capital verður rekstraraðili Bjarkarsjóðsins og hefur þegar lagt 100 milljónir króna í sjóðinn.