„Við sjáum í þessu mikil tækifæri,“ segir Arna Harðardóttir, framkvæmdastjóri fjárfestingarsviðs hjá Auði Capital í samtali við Viðskiptablaðið en eins og fram kom í gær hefur fjárfestingasjóður Auðar Capital, AuÐur I, keypt meirihluta í félögunum Maður Lifandi og Bio vörur.

Í tilkynningu frá sjóðnum í gær kemur fram að með fjárfestingunni hyggist sjóðurinn stuðla að frekari vexti félaganna og taka á komandi árum virkan þátt í þeim miklu tækifærum sem felast í heilsutengdri vöru og þjónustu.

„Þrátt fyrir kreppuna er fólk að hugsa um heilsuna, t.d. er fólk að kaupa vítamín og mæta í ræktina þannig að við sjáum fram á vöxtu hjá þessu félagi,“ segir Arna.

Ekki er gefið upp fyrir hversu mikið AuÐur 1 er að fjárfesta í félögunum en aðspurð segir Arna að ekki sé um nýtt hlutafé að ræða heldur hafi sjóðurinn keypt meirihluta í af stofnanda þeirra, Hjördísi Ásberg, en hún mun áfram eiga minnihluta. Að sögn Örnu eru engir aðrir eigendur að félögunum.

Fulltrúar AuÐar 1 munu um næstu mánaðamót setjast í stjórn félaganna en Arna verður stjórnarformaður. Ráðinn verður nýr framkvæmdastjóri þar sem Hjördís mun snúa sér að öðru.