Auður Capital tapaði 26 milljónum á fyrri hluta ársins 2010 samanborið við rúmlega 55 milljóna króna tap á sama tímabili í fyrra. Tekjur félagsins á fyrri hluta árs námu rúmum 315 milljónum króna. Það er 77% aukning frá fyrri hluta árs 2009. Auður Capital birti hálfsársuppgjör sitt í dag.

Rekstrarkostnaður Auðar jókst um 42% á tímabilinu. Eignir í stýringu félagsins nema um 27 milljörðum króna og hafa aukist um 60% frá áramótum.

Á árinu hefur fagfjárfestasjóðurinn Auður I fest kaup á nær öllu hlutafé Tals og Yggdrasils. Auk þess keypti sjóðurinn um 20% hlut í Securitas og Gagnavörslunni. Auður I er rekinn af Auði Capital en er í eigu 23 fjárfesta, þar á meðal lífeyrissjóðir.

Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital, segir í tilkynningu að hún sé mjög sátt með stöðuna.  „Tekjur okkar hafa aukist jafnt og þétt og vöxtur fyrirtækisins er í takt við áætlanir.  Það er líka sérstaklega ánægjulegt að markaðurinn fyrir fjárfestingar í óskráðum fyrirtækjum er að opnast, aðkoma nýrra fjárfesta veitir nýju fjármagni inn í rekstur þessara fyrirtækja og dregur úr óvissuástandi þeirra sem aftur kemur hreyfingu á hagkerfið sem hefur allt of lengi verið í frosti.“