Nasdaq OMX Iceland hf. hefur samþykkt að Auður Capital verði viðurkenndur ráðgjafi (e. Certified Adviser, CA) á First North Iceland. Hlutverk viðurkennds ráðgjafa felst í því að vera til ráðgjafar og aðstoðar fyrirtækjum við skráningu á First North og á meðan bréf þeirra eru í viðskiptum á markaðnum segir í tilkynningu.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Nasdaq OMX Iceland sagði í tilkynningu: „Það er okkur mikið ánægjuefni Auður Capital verði viðurkenndur ráðgjafi á First North Iceland. Við uppbyggingu hlutabréfamarkaðarins er mikilvægt að fagaðilar eins og Auður Capital komi inn á markaðinn með reynslu og ráðgjöf til fyrirtækja og við væntum mikils af samstarfi okkar við Auði í framtíðinni.”

Margit Robertet, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Auðar Capital, sagði í tilkynningu: „Að okkar mati er First North mikilvægur þáttur í eflingu hlutabréfamarkaðarins og kærkomið fjármögnunartækifæri fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Við hlökkum til að veita fyrirtækjum faglega ráðgjöf og aðstoð við skráningu á First North á næstu misserum.”

Aðkoma viðurkennds ráðgjafa að markaðnum er til þess fallin að byggja traustan markað því það er á ábyrgð hans að fylgjast með því að félög uppfylli ávallt þær aðgangskröfur og upplýsingaskyldur sem gilda á First North.

Auður Capital er sjötta fjármálafyrirtækið sem gegnir hlutverki viðurkennds ráðgjafa á First North Iceland,  en þar af hafa tvö fyrirtæki verið samþykkt sem viðurkenndir ráðgjafar á þessu ári.