Fjárfestingasjóður Auðar Capital, AuÐur I, hefur gengið til samstarfs við ELM og eigendur þess með kaupum á þriðjungs hlut í félaginu.

Fjárfestingunni er ætlað að styðja við og auka enn frekar þann mikla vöxt sem ELM hefur áorkað á síðustu árum, segir í tilynningu frá Auði Capital.

ELM hannar, framleiðir og selur vandaðan hátískufatnað fyrir konur.  Slagorð ELM eru “designed by women for women”.   Félagið var stofnað 1999 af þremur íslenskum hönnuðum, Ernu Steinu, Lísbeti og Matthildi, og vísar nafn félagsins í upphafsstafi þeirra.

ELM hefur samkvæmt tilkynningunni náð miklum árangri á skömmum tíma.  Salan hefur vaxið um tæp 50% á hverju ári síðustu 3 árin og kemur um 80% af sölunni erlendis frá, einkum frá Bandaríkjunum og Evrópu.

ELM hefur ráðið framkvæmdastjóra, Kristínu Hrafnkelsdóttur, textílhönnuð með M.A. í viðskiptum frá Pratt Institute, en hún var áður vörustjóri hjá Össuri.