Fjárhagslegri endurskipulagningu Ölgerðarinnar er nú lokið með því að Auður I, fagfjárfestasjóður í eigu Auðar Capital, ásamt meðfjárfestum koma með nýtt hlutafé og eignast 36% í Ölgerðinni.

Samhliða mun Arion banki eignast 20% í félaginu þannig að meirihluti hlutafjár Ölgerðarinnar er þannig kominn í eigu nýrra aðila.

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri og Októ Einarsson, stjórnarformaður ásamt fjórum framkvæmdastjórum Ölgerðarinnar eiga 44% í félaginu eftir endurskipulagningu. Þann hlut eiga þeir í gegnum eignarhaldsfélögin OA ehf., sem er félag í eigu þeirra Andra og Októs, og F-13 ehf., sem er félag í eigu fjögurra framkvæmdastjóra Ölgerðarinnar.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá fyrrnefndum aðilum.

Þar kemur fram að eftir gengishrun íslensku krónunnar hafi skuldsetning fyrirtækisins verið veruleg byrði á annars góðum rekstri. Þrátt fyrir að öll lán hafi verið í skilum var eigið fé neikvætt og hófu stjórnendur því viðræður við Arion banka um fjárhagslega endurskipulagningu og skuldbreytingu erlendra lána.

Niðurstaða þessara viðræðna eru að samhliða inngreiðslu nýs hlutafjár munu skuldir félagsins lækka úr 9,5 milljörðum í rúma 7,2 milljarða króna og Arion banki eignast 20% hlut í félaginu.

„Það er ánægjulegt fyrir okkur starfsmenn Ölgerðarinnar að óvissunni sé lokið og við horfum nú björtum augum til framtíðar með öfluga nýja hluthafa um borð,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar í tilkynningunni.

Viðbót :

Í tilkynningu frá Arion banka kemur fram að bankinn hafi leitast við með fjárhagslegri endurskipulagningu að hámarka endurheimtur sínar og endurskipulagningin hafi farið fram samkvæmt verklagsreglum bankans, sem m.a. kveða á um að stefnt skuli að endurskipulagningu í samvinnu við stjórnendur og eigendur. Þeir þurfi þó að hafa fram að færa verðmæti til rekstrarins sem tryggja bankanum betri endurheimtur, sýna samstarfsvilja og njóta trausts. Í tilviki Ölgerðarinnar hafi öll þessi skilyrði verið fyrir hendi.

Þá kemur einnig fram að hluti endurskipulagningarinnar snúi að fasteignum Ölgerðarinnar sem eru í eigu G7 fasteignafélags. Skuldir G7 fasteignafélags nema 4,6 milljörðum.

Félagið var fyrir endurskipulagningu í eigu Ölgerðarinnar, sem átti 51% hlut, og Arion banka, sem átti 49% hlut. Við endurskipulagninguna tekur Arion banki yfir eignahlut Ölgerðarinnar og eignast þar með allt hlutafé G7 fasteignafélags. Ölgerðin mun leigja fasteignirnar af G7 á markaðskjörum.