Innan ESB er til umræðu tillaga að svokallaðri þjónustutilskipun. Ætlunin með henni er að reka endahnútinn á grundvallarmarkmið sambandsins frá 1958 um fjórfrelsið, þ.e. frjálsa flutninga á vörum, þjónustu, fjármagni og fólki milli landa sambandsins. Þjónustutilskipuninni er ætlað að samræma og einfalda reglur fyrir þjónustufyrirtæki sem vilja flytja starfsemi sína og stunda viðskipti á milli Evrópulanda. Talið er að tilskipunin geti haft byltingarkenndar afleiðingar í för með sér. Áhrifa hennar mun gæta á íslensk fyrirtæki jafnt og fyrirtæki innan sambandsins.

Í fréttapósti Samtaka verslunar og þjónustu kemur fram að ætlunin er að tilskipunin ryðji úr vegi hindrunum fyrir þá sem vilja bjóða þjónustu milli landa innan sambandsins og tryggi réttindi bæði þeirra sem veita þjónustu og hinna sem veita henni móttöku. Ætlunin er að breyta löggjöf sem Evrópudómstóllinn starfar eftir til samræmis við þetta. Þrjú meginatriði tilskipunarinnar eru eftirtalin:

1. Samræming og einföldun á milli landa innan ESB á reglum sem gilda um stofnun þjónustufyrirtækja.

2. Meginreglan við sölu á þjónustu sé samræmi við aðrar gildandi reglur um upprunaland, þ.e. þjóðerni þess sem veitir þjónustuna.

3. Samræmd gæði og hvatning til meiri einsleitni í þjónustu milli landa. Með því skapast aukið trúnaðartraust milli einstakra aðildarlanda ESB.

Kveðið er á um að koma skuli upp upplýsingaskrifstofum eða sk. ?one stop shop" í hverju aðildarlandi sambandsins þar sem þjónustuaðilar geta fengið leiðbeiningar um regluverk og hvernig skuli staðið að stofnskráningu fyrirtækja o.fl. í viðkomandi landi.

Þjónustutilskipunin hefur verið í undirbúningi í fjögur ár eða allt frá sk. Lissabonfundi Evrópuráðsins árið 2000. Þar var ákveðið að Evrópusambandið yrði samkeppnishæfasta og þekkingardrifnasta efnahagssvæðið í heimi árið 2010. Tilskipunin er nú til umræðu og væntanlega verða gerðar á henni einhverjar breytingar áður en hún tekur gildi segir í fréttapósti SVÞ.