Auðvelt væri fyrir Ísland að ná 8-10% hagvexti með því að bjóða fram lægri skatta og laða þannig að fjármagn og starfsfólk erlendis frá. Þetta segir Richard Teather, skattasérfræðingur og kennari við háskólann í Bournemouth, sem hélt fyrirlestur um skattasamkeppni á milli landa á Skattadegi Deloitte í gær.

Í skattasamkeppni felst að einstök lönd reyna að laða til sín fjármagn og starfsfólk með bjóða lægri skatta.

"Þetta er öllum arðbært og styrkir efnahagi þjóða, hvetur fyrirtæki til að hefja þar starfsemi og laðar að fjármagn úr alþjóðasamfélaginu. Það dásamlega við þetta er að þetta skilar ekki lægri skattatekjum, en hagvöxturinn bætir upp fyrir skattalækkanir, líkt og Laffer-kúrvan (eftir bandaríska hagfræðinginn Arthur Laffer) sýnir fram á. Það hefur það sýnt sig í ítrekað í gegn um tíðina að þau lönd sem hafa lækkað skatta auka jafnframt tekjur sínar. Það voru efasemdir um þetta fyrir einhverjum tíu árum síðan, en sannanirnar í dag eru óyggjandi. Dæmin tala sínu, til dæmis nú nýverið á Írlandi, Eistlandi og eyjunni Jersey, þar sem skattatekjur hafa aukist verulega," segir Teather, en hann hefur unnið í þágu yfirvalda í Jersey að undanförnu.

Snýst um tækifæri

Hann segir að skattasamkeppni eigi sérstaklega vel við um Ísland, þar sem efnahagur landsins sé tiltölulega smár og þurfi þar af leiðandi ekki að laða að nema lítinn hluta fjármagns til að hafa víðtæk áhrif á auð og atvinnuástand þjóðarinnar. Ef Ísland tæki á þetta ráð myndi þjóðin horfa fram á mikið framboð hálaunastarfa í aðlaðandi starfsgeira að sögn Teather.

"Þetta veitir fólkinu í landinu mikil tækifæri, sérstaklega yngri kynslóðum sem eru að klára skóla. Þróun í mörgum eylöndum hefur verið sú að yngra fólkið hefur verið að flytjast af landi brott og snúa ekki aftur fyrr en um eftirlaunaaldur. En með því að lækka skatta og laða að fyrirtæki má snúa þessu ferli við. Ef við lítum til dæmis á Írland sem hefur verið að missa fólk út úr landi um árabil, þá var þar aukning á innfluttu fólki í fyrsta sinn í 200 ár. Þetta gerist vegna aukinna tækifæra þar í landi. Fólk hefur ekki áhuga að vinna í landbúnaði að námi loknu, en bankar eru aftur annað mál. Þetta snýst í raun um að bjóða yngri kynslóðunum tækifæri, sem svo aftur styrkja efnahaginn sem greiðir svo lífeyri til eldri kynslóðanna," segir Teather.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag