Eignir gömlu bankanna hafa ávaxtast hraðar en reiknað var með þegar skilanefndirnar voru skipaðar.

Heildarkostnaður við rekstur Landsbankans, Glitnis og Kaupþings, sem nú eru í greiðslustöðvun og slitameðferðarferli, á fyrri helmingi ársins nam rúmlega 14,2 milljörðum króna. Á ársgrundvelli er kostnaðurinn því tæplega 30 milljarðar.

Heildarvirði eigna hinna föllnu banka er 5.727 milljarðar króna. Er þá tekið tillit til eignarhluta í hinum endurreistu bönkum. Kröfuhafar Glitnis eiga um 95% í Íslandsbanka og kröfuhafar Kaupþings 87% í Arion banka. Í báðum tilfellum á ríkið hlutafé á móti kröfuhöfunum. Það er langsamlega stærsti eigandi Landsbankans með 80% hluta á móti 20% eignarhlutar kröfuhafa gamla Landsbankans.

Mikið vatn runnið til sjávar

Frá því að fyrsta skilanefndin var skipuð, fyrir nákvæmlega tveimur árum í dag þegar stjórnendur Landsbankans leituðu til FME, hefur mikið vatn runnið til sjávar.

Sú stefna skilanefndanna að selja ekki eignir á lágu verði skömmu eftir hrun bankanna heldur ávaxta þær frekar og selja síðan ef ásættanlegt verð fæst fyrir þær hefur að mestu gengið eftir. Það er þó umdeilanlegt eins og svo margt þegar kemur að mati á virði eigna í því árferði sem ríkt hefur á fjármálamörkuðum undanfarin tvö ár, bæði hér á landi og erlendis.

Erfitt er að meta markaðsvirði á eignum sem talist getur rétt. Ekki síst þess vegna hefur verið kappkostað að halda í eignir, endurskipuleggja þær eftir atvikum og reyna eftir fremsta megni að auka virði þeirra. Skýrslur kröfuhafanna sýna að þetta hefur í megindráttum tekist. Eignir hafa endurheimst mun betur en ráð var fyrir gert í upphafi, ekki síst hjá Landsbankanum. En vinnan þar snýst að miklu leyti um að endurheimta eignir sem ná munu upp í forgangskröfur.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .