Erlendar skuldir ríkisins munu aukast sem nemur útgáfu skuldabréfs í evrum í skiptum fyrir íslensk skuldabréf með ábyrgð ríkisins sem seðlabankinn í Lúxemborg sat uppi með eftir fall Landsbankans þar í landi. Upphæð skuldabréfsins nemur 402 milljónum evra sem samsvarar um 65 milljörðum króna miðað við gengi krónunnar gagnvart evru í dag. Líftími bréfsins er til fimmtán ára og ber breytilega vexti miðað við millibankavexti í Evrópu að viðbættu álagi. Í dag má segja að vextirnir séu 3,4%.

Ákvörðunin sem kynnt var í morgun felur í sér að ríkið skuldbindur sig til að greiða evrur til Seðlabankans í Lúx og tekur yfir krónueignir á móti. Til að greiða evrurnar verður að ganga á gjaldeyrisforða Seðlabankans. Í fréttatilkynningu Seðlabankans frá því í morgun kemur fram að þessi gjörningur feli í sér að erlend skuldastaða þjóðarbúsins lækki um rúmlega 3,5% af landsframleiðslu.

Það kann að hljóma undarlega að skuld sem greidd er með láni lækki skuldir þjóðarbúsins. Það sem við er átt er að nú skuldar ríkið ekki lengur erlendum aðila krónur þar sem ríkið hefur tekið við skuldabréfunum sem áður voru í eigu Seðlabankans í Lúxemborg. Í staðinn skuldar íslenska ríkið meira í evrum sem nemur upphæð skuldabréfsins sem gefið var út til að greiða fyrir pakkann. Hins vegar eru sú skuld færð á lægri upphæð en gamla skuldabréfaskuldin, sem nemur 3,5% af landsframleiðslu. Það eru um 50 milljarðar króna, sem má segja að sé afsláttur á gömlu skuldinni.