Frá stofnun starfsendurhæfingarsjóðsins Virk árið 2008, hafa alls 11 þúsund einstaklingar leitað til hans. Af þeim hafa 6.221 lokið þjónustu og útskrifast frá starfi sjóðsins, en rúmlega 70% eru virkir á vinnumarkaði við útskrift.

Um áramótin núna voru rúmlega 2.000 einstaklingar í þjónustu hjá þeim sem er um 8% fleiri en um síðustu áramót. Er það þrátt fyri að nýjum í þjónustu hafi fækkað um 7% milli ára, að því er kemur fram í frétt frá sjóðnum .

Færri koma nú inn eftir mikinn vöxt

Á árinu 2016 komu 1.673 nýir einstaklingar inn í þjónustu hjá Virk, sem er um 7% færri einstaklingar en árið 2015, en 1.111 einstaklingur lauk starfsendurhæfingarþjónustu á síðasta ári. Það er 18% færri en árið 2015 þegar 1.346 útskrifuðust. Fram að því hafði verið mikill vöxtur í þátttöku hjá sjóðnum.

„Eins og áður segir þá eru rúmlega 70% þeirra einstaklinga sem hafa lokið þjónustu hjá VIRK með vinnugetu og fara annað hvort beint í launað starf, virka atvinnuleit eða lánshæft nám,“ segir í frétt frá Virk.

Þúsundir einstaklinga virkjaðir á vinnumarkaði

„Árangur og ávinningur af starfsemi VIRK - fjárhagslegur og samfélagslegur - er mjög mikill þar sem hún hefur á undanförnum árum skilað þúsundum einstaklinga í virka þátttöku á vinnumarkaði.

Þetta hafa utanaðkomandi aðilar staðfest en niðurstöður athugunar Talnakönnunar sýna að ávinningurinn af starfsemi VIRK á árinu 2015 hafi numið um 13,8 milljörðum króna.

Aukin vinnugeta

Niðurstöður fyrri athugana Talnakönnunar sýndu að ávinningur af starfi VIRK var 11,2 milljarðar króna 2014 og 9,7 milljarðar á árinu 2013.

Þá sýna þjónustukannanir VIRK að þátttakendur eru undantekningalítið mjög ánægðir með þjónustuna og telja hana auka verulega bæði lífsgæði sín og vinnugetu.“