*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 8. maí 2018 12:08

Ávinningurinn hafður af neytendum

FA segir að innflutningsfyrirtæki þurfi að leita réttar síns vegna innflutningstakmarkana sem felast í að kjöt sé reiknað með beini.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Félag atvinnurekenda krefur landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um upplýsingar og svör vegna áætlana stjórnvalda um að skerða einhliða innflutningskvóta fyrir kjöt til landsins. Jafnframt gagnrýnir félagið harðlega áform ráðuneytisins sem byggja á að skilgreina kjötinnflutning innan tolla sem svo að hann innihaldi bein.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá hefur ráðuneytið gefið út að núverandi heimilaður innflutningskvóti án tolla verði endurskilgreindur þannig að hann eigi við um kjöt með beini. Það þýðir að innflutningurinn á hreinu kjöti skerðist um allt að þriðjung að því er Neytendastofa og SVÞ hafa bent á.

Spyrja hví snúið sé aftur að fyrirkomulagi uppboða sem reynst hafi illa

FA bætir við um betur og óskar svara og mótmælir harðlega ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um að taka aftur upp að auglýsa innflutningskvótana tvisvar á ári, þrátt fyrir að fallið hafi verið áður frá því fyrirkomulagi því hafi reynst illa. Segir félagið að það fyrirkomulag hafi stuðlað að hækkun á gjaldinu sem greitt er fyrir innflutningsheimildirnar.

Bendir félagið á að það hafi gagnrýnt harðlega skipun starfshóps um mótvægisaðgerðir fyrir bændur vegna samkeppni af innflutningi, en í fréttum er vitnað í að þessar breytingar séu að undirlagi tillagna hópsins. Þá sérstaklega að einungis fulltrúar ríkisins og framleiðendur innlendrar matvöru voru í hópnum meðan innflutningsfyrirtæki og neytendur fengu enga aðkomu að honum.

Hlutverk hópsins að hafa af neytendum ávinning af tollasamning

„[...] enda virðist hlutverk hans aðallega hafa verið að finna upp á leiðum til að hafa aftur af neytendum þann ávinning, sem fólst í tollasamningnum við ESB,“ segir á vef FA um bréf Ólafs Stephenssen framkvæmdastjóra félagsins til ráðherra.

„Í tollasamningi Íslands og ESB er hvergi kveðið á um að tollfrjálsir innflutningskvótar fyrir kjötvörur skuli miðaðir við kjöt með beini. Samningurinn tekur því til hvort heldur er innflutnings á úrbeinuðu kjöti eða kjöti með beini. Fyrsta úthlutun á tollkvótum samkvæmt samningnum hefur þegar átt sér stað og er þar enginn greinarmunur gerður á kjöti með eða án beins.“

Bendir félagið á að allt frá því að WTO samningurinn tók gildi árið 1995 hafi verið miðað við innflutning á kjöti hvort heldur sem er með eða án beins, og enginn greinarmunur hafi verið gerður í fyrstu úthlutun á núverandi tollkvótum.

Fagnaðarefni Sigurðar Inga og Gunnars Braga tekið til baka

Bendir félagið á að Sigurður Ingi Jónsson, sem þá var einnig ráðherra, hafi ásamt Gunnari Braga Sveinssyni, kynnt samninginn fyrir tveimur árum sem fagnaðarefni fyrir íslenska neytendur.

„Það er algjörlega forkastanlegt að nú, tveimur og hálfu ári síðar, skuli landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra tilkynna áform um að hafa af neytendum stóran hluta þess ávinnings, sem í samningnum felst.“

Loks segir félagið að ákvörðun ráðherra sé klárlega takmarkandi innflutningsráðstöfun og augljóst brot á rétti neytenda jafnt sem innflutningsfyrirtækja. „Verði áformum ráðuneytisins hrint í framkvæmd kunna innflutningsfyrirtæki að þurfa að leita þess réttar síns.“