Avion Aircraft Trading hefur gengið frá kaupum á sex nýjum Airbus A330-200 fraktvélum sem koma í fyrsta skipti á markað í ársbyrjun 2010. Listaverð vélanna er 6,7 milljarðar íslenskra króna en raun kaupverð er umtalsvert lægra og er trúnaðarmál milli kaupanda og seljanda segir í tilkynningu.

Fjármögnun fyrir kaupunum hefur að fullu verið tryggð í gegnum erlenda fjárfestingarsjóði segir í tilkynningu vegna kaupanna.

Hafþór Hafsteinsson stjórnarformaður og Davíð Másson forstjóri Avion Aircraft Trading og Kimon Sotiropoulos og John Leahy framkvæmdastjórar hjá Airbus verksmiðjunum, undirrituðu kaupsamninginn. Undirritunin fór fram í höfuðstöðvum Airbus í Toulouse í Frakklandi í dag við hátíðlega athöfn. AAT er fjórða fyrirtækið í heiminum sem semur um kaup á hinum nýju Airbus A330-200 vélum.

Vélarnar verða afhentar á árunum 2010 og 2011 og er þetta í fyrsta skipti sem íslenskt fyrirtæki kaupir nýjar vélar frá Airbus.

Í tilkynningunni kemur fram að ákvörðun Avion Aircraft Trading um kaup á þessum vélum byggist á mjög hagstæðu kaupverði og spám um mikinn vöxt í fraktflutningum í heiminum. Sömu spár telja þörf fyrir meira en 400 fraktvélar af þessari burðargetu næstu 20 árin. Airbus A330-200 fraktvélin er eina vélin í sínum stærðarflokki sem getur borið 64 tonn með 7.400 km hámarks flugdrægi og hámarks burðargetu upp á 69 tonn með 6,000 km flugdrægi. Yfir 60 flugfélög reka í dag farþegaútgáfuna sem auðveldar viðkomandi flugfélögum að taka fraktútgáfuna í notkun. Er Avion Aircraft Trading nú þegar í viðræðum við flugfélög um leigu á nýju vélunum.

Avion Aircraft Trading er í 51% meirihlutaeigu Hafþórs Hafsteinssonar og Arngríms Jóhannssonar, stjórnenda og annara fjárfesta og 49% eru í eigu HF Eimskipafélags Íslands. AAT var stofnað í apríl 2005 og hefur fyrir þessi kaup keypt 21 flugvél, aðallega Airbus A300-600, Boeing 747-400 og nýjar Boeing 777 fraktvélar sem síðan eru seldar aftur á markaði.