Avion Aircraft Trading, dótturfyrirtæki Avion Group, hefur keypt þrjár Airbus farþegavélar sem breytt verður í fraktvélar. Kaupin og breytingarnar eru hluti af endurnýjun flugflota Avion Group og undirstrika aukna áherslu á fraktflutninga innan samstæðunnar.

Avion Aircraft Trading keypti þrjár Airbus 300-600 farþegavélar af China Airlines í Taiwan fyrir 2,6 milljarða. Jafnframt var samið við dótturfyrirtæki Airbus, EFW (Elbe Flugzeugwerke GmbH), um breytingu á farþegavélunum í fraktvélar. Vélarnar fást afhentar fullkláraðar á næsta ári og byrjun árs 2007. Samningurinn um breytingarnar er að andvirði 1.7 milljarðar króna. Heildarfjárfesting með kaupum og breytingakostnaði er því 4,3 milljarðar króna.

Mikil eftirspurn er á markaði fyrir Airbus A300-600 fraktvélar og kemur til greina að vélarnar verði seldar aftur.

Dótturfélag Avion Group, Air Atlanta Icelandic er með fjórar Airbus A300-600 fraktvélar í flugflota sínum og er gert ráð fyrir að fleiri slíkar vélar bætist við á næstu árum. Airbus A300-600 fraktvélar hafa 4,000 km flugdrægi og bera tæp 50 tonn.

?Við teljum að fjárfestingin sé gerð á hárréttum tíma og á forsendum sem gefa okkur hámarksarðsemi. Airbus vélarnar hafa reynst Air Atlanta Icelandic og viðskiptavinum þeirra mjög vel. EFW hefur breytt yfir 100 Airbus vélum fyrir stóra viðskiptavini eins og t.d. FedEx og fyrirtækið er þekkt fyrir gæði í breytingaverkefnum af þessu tagi," segir Hafþór Hafsteinsson forstjóri flugflutningasviðs Avion Group.

Avion Aircraft Trading er dótturfyrirtæki Avion Group og gekk nýlega frá samningi við Boeing flugvélaverksmiðjurnar um kaup á fjórum nýjum Boeing 777 fraktvélum með afhendingu árið 2009.